Stáli og Aron báðir góðir kynbótahestar – Sponni og félagar gerðu ítarlegan...

Stáli og Aron báðir góðir kynbótahestar – Sponni og félagar gerðu ítarlegan samanburð

Deila

Áhugasamir hestamenn á spjallinu hafa gert ítarlega úttekt og samanburð á afkvæmum tveggja stóðhesta: Arons frá Strandarhöfði og Stála frá Kjarri. Þessir stóðhestar eru báðir miklir kynbótahestar. Það hafa þeir sannað. Kynbótamatið og tölfræðin sýna að afkvæmi þessara hesta eru að koma mjög vel út á kynbótasýningum. 

Það sem þarf samt að hafa í huga þegar þessir hestar, Aron og Stáli, eru bornir saman, er að Aron hefur notið vinsælda frá því að hann kom fyrst fram árið 2002. Stáli hins vegar vakti ekki verulega athygli fyrr en árið 2006 þegar hann eftirminnilega stóð efstur á landsmóti með 9,09 fyrir hæfileika. Flest afkvæmi Stála eru fædd árið 2007 eða síðar.

Aron frá Strandarhöfði fékk sinn hæsta dóm á landsmóti sumarið 2004, 8,75 fyrir hæfileika. Hann fékk 9,5 fyrir tölt og fegurð í reið. Aron fékk líka 9,5 fyrir tölt þegar hann var sýndur 4 vetra á landmóti á Vindheimamelum.

Aron hefur fengi heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og umsögn um afkvæmi Arons hljóðar þannig:

Landsmót 2011 – Vindheimamelar Verðlaun                  

 Heiðursverðlaun   Dómssorð      

Aron gefur hross í rúmu meðallagi að stærð með skarpt, svipgott höfuð og vel opin augu en djúpa kjálka og merarskál. Hálsinn er langur og mjúkur með klipna kverk en rís alloft ekki nógu vel úr herðum. Bakið er breitt og lendin löng og afar öflug. Afkvæmin eru hlutfallarétt og fótahá en stundum síðuflöt. Fætur eru þurrir og sinaskil góð en liðir fremur grannir, réttleiki er slæmur. Hófar eru efnisþykkir en prúðleiki um meðallag. Fjölhæfni einkennir afkvæmin, töltið best, mjúkt og taktgott með góðri fótlyftu, brokkið taktgott og ágætlega skrefmikið en ferðlítið, skeiðið takthreint, öruggt og ferðmikið. Góður fetgangur einkennir afkvæmin. Viljinn er ásækinn og vakandi og hrossin fara vel með háum fótaburði. Aron gefur hlutfallarétt og fótahá hross. Flest afkvæmin eru alhliðageng og mjúk, töltið best og vekurðin snjöll. Aron hlýtur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og annað sætið.

AXEL3590 Aron og Hinni3
Aron frá Strandarhöfði, knapi Hinrik Bragason. Aron er undan Óði frá Brún og Yrsu frá Skjálg

————————————–

Stáli frá Kjarri var í haust með 121stig í kynbótamatinu. Hann á 59 dæmd afkvæmi og samkvæmt því hefur Stáli unnið sér rétt til heiðursverðlauna fyrir afkvæmi. Það er ólíklegt annað en að afkvæmasýningu Stála fari fram á LM2014 á Hellu og þar taki hann við heiðursverðlaunum fyrir afkvæmi. Umsögn um afkvæmi Stála hljóðar þannig:

Landsmót 2011 – Vindheimamelar        

  1. Verðlaun    Dómsorð                                  

Stáli gefur hross í tæpu meðallagi að stærð með skarpt og þurrt höfuð. Hálsinn er grannur og kverkin klipin. Bakið er breitt og vöðvað en lendin heldur grunn. Afkvæmin eru léttbyggð, fótahá og sívöl. Fætur eru þurrir en grannir og nokkuð nágengir. Hófar eru efnisþykkir en prúðleiki er slakur. Afkvæmin eru taktgóð og mjúk á tölti en brokkið skortir rými. Flest afkvæmin eru alhliðageng og skeiðgeta er afbragð, bæði að rými og öryggi. Afkvæmin hafa góðan reiðvilja og fara vel með ágætum fótaburði. Stáli gefur hálsgrönn og léttbyggð hross. Flest alhliðageng, skeiðgetan prýðileg og viljinn góður. Stáli hlýtur fyrstuverðlaun fyrir afkvæmi.

Stali fra Kjarri

Stáli frá Kjarri, knapi Daníel Jónsson. Stáli er undan Galsa frá Sauðárkróki og Jónínu frá Hala.

———————————————————–

Hér fyrir neðan er úttekt og athugasemdir spjallverja á afkvæmum Stála frá Kjarri og Arons frá Strandarhöfði. Það er gott að hafa í huga þegar þetta er skoðað að tölfræði er oft hægt að túlka á mismunandi hátt:

Sponni

Aron vs Stáli 

Sælir Hestamenn, ég hef verið að velta fyrir mér hvort að ég eigi að halda undir Stála eða Aron í sumar, það tala margir um að Aron gefi ekki fallegt og stuttan háls þannig að ég var hræddur við að nota hann. Ég gerði smá könnun: 

Stáli hefur átt 428 afhvæmi og af þeim hafa 27 náð fyrstu verðlaun í aðaleinkun. 
Aron Hefur átt 518 afhvæmi og af þeim hafa 71 náð fyrstu verðlaun í aðaleinkun. 

Stáli á 9 afkvæmi sem hafa náð yfir 8,40 fyrir hæfileika. 
Aron á 19 afkvæmi sem hafa náð yfir 8,40 fyrir hæfileika. 

Stáli á 34 afhvæmi sem hafa náð í fyrstu verðlaun fyrir byggingu. 
Aron á 50 afhvæmi sem hafa náð í fyrstu verðlaun fyrir byggingu. 

Ég get ekki séð að maður eigi að vera hræddur við byggingardóma ef maður heldur undir Aron, þetta er greinilega betri kynbótahestur að mínu mati. 

Ég tek það skýrt fram að ég hef aldrei verið neinn sérstakur aðdáandi Arons og tengist honum ekki á neinn hátt en tölurnar ljúga ekki! 

Hver er ykkar reynsla af afkvæmum þessa gæðinga??

—————————————-

valli          Re: Aron vs Stáli 
February 13, 2014 02:40PM

Ef þú ætlar að gera svona samanburð, er þá ekki betra að gera hann almennilega? 

Til að mynda, þá kom Aron fyrst fram á landsmóti 2002 en Stáli ekki fyrr en árið 2003 og þá liðu ennfremur önnur þrjú ár þangað til hann sló fyrst í gegn á landsmóti 2006. Þar af leiðandi á Aron miklu fleiri afkvæmi fædd fyrir árið 2007 en Stáli. 

Hvernig væri að tiltaka hversu mörg afkvæmi þeir eiga á sýningaraldri, með öðrum orðum tryppi fædd 2010 og síðar koma þessari jöfnu ekkert við og skekkja aðeins heildarmyndina séu þau tekin með í reikninginn. 

Til þetta sé marktækt þyrftiru að tiltaka hversu mörg prósent afkvæma á sýningaraldri hafa komið í dóm og hversu hátt hlutfall sýndra afkvæma er með 1. verðlaun. Og í framhaldinu er hægt að bera saman prósentuhlutföll þessara tveggja hesta. 

Getur til dæmis verið að Aron eigi fleiri afkvæmi með 1. verðlaun fyrir byggingu af því hann á fleiri sýnd afkvæmi og að hann eigi fleiri sýnd afkvæmi af því að hann eigi fleiri afkvæmi á sýningaraldri? 

Svona samanburður, sérstaklega milli hesta sem koma fram með nokkurra ára millibili er engan veginn hægt að gera með því að gera einfalda talningu og birta niðurstöður. Prósentur eru það eina sem er marktækt í þessum efnum.

—————————————————

njóttu    Re: Aron vs Stáli 
February 13, 2014 08:51PM

Stáli á 248 afkvæmi á sýningaraldri eða 58% af heildarfjölda sem er 428. 
Aron á 407 afkvæmi á sýningaraldri eða 79% af heildarfjölda sem er 518. 

59 afkvæmi Stála hafa komið í dóm sem gera 24% 
128 afkvæmi Arons hafa komið í dóm sem gera 31% 

27 afkvæmi stála hafa hlotið 1. verðlaun sem gera 46% af hlutfalli sýndra afkvæma en 11% af heildarfjölda 
71 afkvæmi Arons hafa hlotið 1. verðlaun sem gera 55% af hlutfalli sýndra afkvæma en 17% af heildarfjölda 

9 afkvæmi Stála hafa fengið 8,40 eða hærra fyrir hæfileika það gera 15% af sýndum en 4% af heild. 
19 afkvæmi Arons hafa fengið 8,40 eða hærra fyrir hæfileika sem gera 15% af sýndum en 5% af heild 

Þá hafa 39 afkvæmi Stála fengið 1. verðlaun fyrir byggingu sem er 55% af sýndum afkvæmum. 
Og 50 afkvæmi Arons hafa fengið 1. verðlaun fyrir byggingu sem er 39% af sýndum afkvæmum. 

Samkvæmt þessu er Aron að standa sig betur hlutfallslega séð að koma hrossum í dóm. Það er hins vegar eitt sem vantar inní þessa útreikninga og það er meðalaldur sýndra afkvæma sem er mikilvægur þáttur í þessu mati. Eins og komið hefur fram þá vantar Stála næstum fjögur ár til þess að keppa við Aron á jafnréttisgrundvelli (afkvæmi Stála eru færri en 50 fram til ársins 2007, ég nennti ekki einu sinni að telja hvað Aron eignaðist mörg á árabilinum 2003-2006). Eitthvað segir mér að afkvæmi Arons séu að meðaltali eldri þegar þau hafa hlotið sína hæstu dóma og því getur vel verið að innan fárra ára verði þetta hlutfall milli sýndra afkvæma og fjölda 1. verðlauna afkvæma búið að jafnast betur út á milli þeirr. 

Þetta eru allt í allt frábærir kynbótahestar báðir tveir en mjög ólíkir og kannski ekki augljósustu keppinautar um val á hryssu. Hryssan þín ætti líklega að henta öðrum betur og þá væri skynsamlegt að láta valið taka meira mið af því – nú eða einfaldlega velja annan þeirra í sumar og hinn sumarið þar á eftir.

—————————————————————

Fleiri innlegg um þetta mál á eru á spjallinu – Sjá hér.

 

ENGAR ATHUGASEMDIR

SKRIFA ATHUGASEMD