Sterkir stóðhestar á Stórmóti Geysis

Sterkir stóðhestar á Stórmóti Geysis

Deila

Stóðhestar voru áberandi á Stórmóti Geysis á Hellu um verslunarmannahelgina eins og á flestum hestamótum. Stóðhestar sigruðu í bæði A- og B-flokkum gæðinga og í tölti. Það var Kórall frá Lækjarbotnum sem sigraði A-flokkinn setinn af Jóhanni Kristni Ragnarssyni eins og oft áður; Ásmundur Ernir Snorrason á Speli frá Njarðvík sigraði B-flokkinn og svo var  það Bylgja Gauksdóttir á Dagfara frá Eylandi sem vann töltið.

 

Sigur Kórals var ekki stór þótt einkunnin væri stór 8.85, því þeir Jóhann urðu aðeins einni kommu ofar en Sif frá Akurgerði sem Fanney Guðrún Valsdóttir sat, mikill gæðingur þar á ferð aðeins sex vetra. Margir muna eftir Sif frá Landsmóti 2014 þar sem hún sigraði flokk 5 vetra hryssa. Mörg önnur góð hross komu svo í næstu sætum; Hlíf frá Skák, Kerfill frá Dalbæ og Oddaverji frá Leirubakka. Kórall er undan Sæ frá Bakkakoti og Hraundísi frá Lækjarbotnum, en eigendur eru Strandarhöfuð ehf og Guðlaugur Kristmundsson á Lækjarbotnum sem einnig er ræktandi hestsins. Kórall hefur hæst hlotið 8,50 í kynbótadómi og hann á 34 skráð afkvæmi, þar af eitt sýnt í fyrstu verðlaun: Perla frá Lækjarbotnum. Kórall er fæddur 2005.

 

Spölur frá Njarðvík sigraði sem fyrr segir B-flokk gæðinga, en þessi hestur hefur verið sívaxandi í höndum knapans, Ásmundar Ernis Snorrasonar og munu þeir örugglega eiga eftir að koma við sögu í B-flokki á næstunni haldist hesturinn á landinu.  Spölur fékk gríðarháa einkunn í úrslitum, 8.96 en næst komu svo hestagullið Kvika frá Leirubakka setin af Jóhanni Ragnarssyni og þá Sörli frá Hárlaugsstöðum setinn af Pernille Lyager Möller með 8.73. Kvika sýndi mikil tilþrif á yfirferðinni og er greinilega orðinn afar sterkur B-flokkskeppnishestur líkt og faðir hennar, Eldjárn frá Tjaldhólum. Spölur er fæddur 2006 í eigu þeirra Ásdísar Adolfsdóttur og Brynjars Guðmundssonar sem eiga hestinn. Spölur á 36 skráð afkvæmi, öll fædd á Reynistað. Hann er undan Rökkva frá Hárlaugsstöðum og Sælu frá Sigríðarstöðum. Spölur er með fyrstu verðlaun, en lág byggingareinkunn hefur líklega komið í veg fyrir mikla notkun hans sem kynbótahests þótt gæðin séu mikil. En Rökkvi átti þarna tvo fulltrúa í úrslitum, því Sörli hennar Pernille er undan honum eins og Spölur.

Stórmót Geysis 419

Ásmundur Ernir Snorrason og Spölur frá Njarðvík

 

 

Bylgja Gauksdóttir sigraði svo töltið á þriðja stóðhestinum, hinum bleikálótta Dagfara frá Eylandi, sem er undanAroni frá Strandarhöfði og Veru frá Ingólfshvoli. Dagfari er fæddur 2008 og á eitt skráð afkvæmi en hefur ekki komið í kynbótadóm enn. Ræktendur hans eru Davíð Matthíasson og Rut Skúladóttir og er hún nú eigandi ásamt Skúla Rósantssyni. Í úrslitum töltsins fengu Bylgja og Dagfari 7.56, en næst kom svo Hallgrímur Birkisson á Dáta frá Hrappsstöðum með 7.50.  Úrslitin voru mjög vel riðin hjá Hallgrími sem hafði þó nokkuð fyrir þessu sæti, en hann kom upp úr B-úrslitum með Dáta.   Þá var Fríða Hansen á Heklu frá Leirubakka í þriðja sæti með 7.33, en þar er vaxandi keppnispar á ferðinni og er Hekla sammæðra Kviku frá Leirubakka.

Stórmót Geysis 378
Dagfari og Bylgja í harðri baráttu við Jóhann og Kviku frá Leirubakka

Þá er þess einnig að geta með Bylgju og Dagfara að þau enduðu í 4. sæti í B-flokksúrslitum einnig þannig að þessi hestur er sannarlega að springa út núna.

Stórmót Geysis 964

Kórall frá Lækjarbotnum og Jóhann Kristinn Ragnarsson

Stórmót Geysis um verslunarmannahelgina er greinilega að festa sig í sessi,  og í ár voru skráningar marghar og hestakosturinn töluvert sterkur. Allar aðstæður voru fínar og mótið góð upphitun fyrir Suðurlandsmót í hestaíþróttum síðar í ágúst.

ENGAR ATHUGASEMDIR

SKRIFA ATHUGASEMD